Greiningardeild Kaupþings spáir 2% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í maí frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 13% samanborið við 11,8% verðbólgu í apríl.

Að mati Greiningardeildar hafa áhrif gengisbreytinga hafa ekki komið fram af fullu leyti en koma fram í verðlagi nú í maí.

Í spá Greiningardeildar er gert ráð fyrir að svipaðir þættir og í apríl drífi áfram verðlagshækkanir. Þættir líkt og verðhækkun á matvörum, eldsneyti og húsbúnaði ásamt ýmiss konar þjónustu eru þeir sem mestu áhrifin hafa til hækkunar á VNV í maí.

Uppsöfnuðum kostnaðarhækkunum hleypt út í verðlagið

„Verðbólgumælingar í apríl voru ívið hærri en Greiningardeild hafði gert ráð fyrir og virðist vera sem áhrif gengisbreytinga séu að koma hraðar fram í verðlagi en reynsla síðustu ára sýnir (sbr. árin 2001 og 2006),“ segir í verðbólguspá Greiningadeildar Kaupþings.

„Að mati Greiningardeildar hefur hér áhrif að á sama tíma og gengisbreytingum er hleypt út í verðlag eru ýmsar uppsafnaðar kostnaðarhækkanir að koma fram sem m.a. má rekja til hækkandi fjármagnskostnaðar fyrirtækja með gengisfalli krónunnar og auknu vaxtaálagi. Þá hefur heimsmarkaðsverð á hrávörum farið hækkandi sem jafnframt ýkir verðhækkanir á til dæmis matvörum og eldsneyti.“

Verðbólgan endar í kringum 12% í lok árs

Greiningardeild Kaupþings spáir því að hægt og bítandi dragi úr verðbólguhraðanum er líður á árið þegar að áhrif gengisfalls krónunnar nú í upphafi árs fjara út.

Þá er einnig gert ráð fyrir að á seinni hluta ársins taki húsnæðisliðurinn að hafa áhrif til lækkunar samhliða því sem íbúðaverð lækkar og raunvextir íbúðalána hafa ekki lengur áhrif til hækkunar. Gangi spá Greiningardeildar eftir er líklegt að 12 mánaða verðbólga endi í kringum 12% í lok ársins.