Í apríl og maí dróst greiðslukortavelta saman um 2,5% á föstu verðlagi frá sama tíma í fyrra. Tölur um sölu nýrra bifreiða sýna einnig verulegan samdrátt. Vöxtur var hins vegar í veltu dagvöruverslunar á milli ára um rúm 2% miðað við apríl og maí.

Greiningadeild Landsbankans telur engu að síður miklar líkur á því að einkaneysla á öðrum ársfjórðungi dragist saman.

Greiðslukortavelta nam tæpum 60 milljörðum króna í maí en þar var 26,2 milljarða króna velta í kreditkortum og 33,7 milljarða króna velta í debetkortum.

Á föstu verðlagi var kreditkortavelta nánast óbreytt á milli ára en debetkortavelta hefur hins vegar dregist saman um 7,7%. Heildar greiðslukortavelta hefur því dregist saman um 4,5% á föstu verðlagi síðastliðna tólf mánuði.

Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.   Greiningadeild Landsbankans segir að vegna víðtækrar notkunar greiðslukorta hér á landi ætti greiðslukortavelta að gefa ágæta vísbendingu um þróun einkaneyslu.

Þá greinir greiningadeildin frá því að um mitt árið 2004 hófst mikil samkeppni bankanna og Íbúðalánasjóðs, fasteignaverð hækkaði skarpt og einkaneysla jókst gríðarlega í kjölfarið.

„Nú hefur verulega dregið úr útlánavexti og við gerum ráð fyrir að greiðslukortavelta verði aftur góð vísbending um þróun einkaneyslu,“ segir Greiningadeild Landsbankans í Vegvísi.

Einkaneysla á fyrsta fjórðungi þessa árs jókst um 5,2% frá fyrra ári, eins og fram kom í tölum Hagstofunnar frá því á fimmtudaginn. Á sama tíma jókst greiðslukortavelta um 1,6% á föstu verðlagi.

„Þessi mikli munur kann að skýrast af því að stóran hluta aukningar einkaneyslu á fjórðungnum mátti rekja til bifreiðakaupa,“ segir í Vegvísi.