A landslið kvenna í knattspyrnu á raunhæfan möguleika á að komast í úrslitakeppni stórmóts, fyrst íslenskra A landsliða í íþróttinni.

Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans en þar segir jafnframt að árangur liðsins í undankeppni Evrópumótsins sé sá besti frá upphafi en að meðaltali hefur það skorað 3,2 mörk í leik samanborið við 1,6 frá upphafi.

„Á meðan hafa mótherjar liðsins ekki skorað nema 0,3 mörk að meðaltali í leik samanborið við tæp 2 að meðaltali frá upphafi,“ segir Greiningadeild Landsbankans í ítarlegri umfjöllun sinni um A landslið kvenna í Vegvísi í dag.

Góðir möguleikar gegn Grikkjum

Ísland leikur gegn Grikklandi í síðasta heimaleik sínum í 3. riðli Evrópumótsins á Laugardalsvelli klukkan 16.30 í dag og getur með sigri komist upp að hlið Frakklands í efsta sæti undanriðilsins.

Leikur á útivelli gegn Frakklandi í lok september mun þá skera úr um hvort liðið fer í úrslitakeppnina en Ísland vann fyrri leikinn 1-0.

Fyrri leikurinn gegn Grikkjum fór 0-3 Íslandi í vil en liðin hafa mæst þrisvar og Ísland ávallt farið með sigur af hólmi (markatala 12-1).

„Mælst er til þess að fólk mæti bláklætt á völlinn og styðji við bakið á stelpunum okkar,“ segir Greiningadeild Landsbankans í Vegvísi í dag og spáir skemmtilegum leik.