Gengisvísitalan var 151,1 stig í lok dags og veiktist krónan því um 2% frá opinberu gengi Seðlabankans (148,1 stig) á föstudag. Velta á gjaldeyrismarkaði var um 41 milljarður samkvæmt Vegvísi Landsbankans.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun íslensku krónunnar síðasta mánuð samkvæmt gengisvísitölu Seðlabankans en opinber gengisskráning var í morgun 150,5 stig.

Seðlabankinn aðgerðarlaus

„Svo virðist sem tengja megi veikingu krónunnar við aðgerðaleysi seðlabankans, en enn hafa engar ákvarðanir verið gerðar opinberar um stækkun gjaldeyrisforðans eða um samninga við erlenda seðlabanka. Mikilvægt er að ekki þurfi að bíða mjög lengi eftir niðurstöðum í þessum málum,“ segir í Vegvísi Landsbankans.

Þá segir í Vegvísi að á fréttamannafundi í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans á fimmtudaginn hafi Davíð Oddsson bankastjóri lýst því yfir að hann teldi ekki óeðlilegt að tvöfalda gjaldeyrisforðann.

Þá er einnig minnt á að á ársfundi Seðlabankans í lok mars sagði Geir Haarde forsætisráðherra frá því að það væri vert að kanna samstarf milli Seðlabankans og seðlabanka í ríkjum þar sem íslensku bankarnir eru umsvifamiklir.

„Þessi fyrirheit héldu aftur af lækkun krónunnar en nú virðist fulllangt liðið án þess að árangur hafi náðst. Krónan er því farin að veikjast á ný,“ segir í Vegvísi.

Gengi gjaldmiðla

Samkvæmt vef Landsbankans stendur evran nú í 118,3 krónum, Bandaríkjadalur í 74,6 krónum og Sterlingspund í 148,2 krónum.

Þá stendur svissneskur franki í 75 krónum og japanskt jen í 0,74 krónum