Greiningardeild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 1,9% í apríl. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 10,1% í apríl samanborið við 8,7% í mars. Miklar verðhækkanir á innfluttum vörum leiða verðbólguna að þessu sinni, segir í skýrslu greiningadeildarinnar.

„Verðbólga eykst mikið milli mánaða ef spá okkar gengur eftir en tólf mánaða verðbólga hefur ekki farið yfir 10% frá því í október 1990. Krónan hefur nú veikst um 17% frá áramótum og því er enn til staðar þó nokkur þrýstingur á verðlag þrátt fyrir styrkingu síðustu daga,“ segir greiningadeildin.

Þá segir: „Matur og drykkjarvörur hækkuðu minna en við áttum von á í síðustu mælingu eða aðeins um 0,3%. Við teljum því líkur á að hækkun matvöruverslana komi fram af miklum þunga í næstu mælingu og þar muni mesta hækkun á mjólkurafurðum í áratugi gefa tóninn.“

Einnig kemur fram að verðskrár flestra bílaumboða hafa hækkað um 15% frá síðustu mælingu en það eitt og sér skilar sér í 1% áhrifum á vísitölu neysluverðs. Þó hefur krónan styrkst á nýjan leik og því ætti að vera svigrúm til lækkunar á ný þar sem þær voru endurskoðaðar á svipuðum tíma og krónan var sem allra veikust fyrir páska.