Eins og greint var frá í morgun mælist 12 mánaða verðbólga á Íslandi í dag 12,3% en vísitala neysluverðs (VNV) miðað við verðlag í maí hækkaði um 1,4% frá fyrri mánuði.

Á myndinni hér til hliðar má sjá verðbólguspár greiningadeildanna fyir maí og 12 mánaða verðbólgu.

Greiningadeildir bankanna höfðu spáð fyrir um hækkun vísitölu neysluverðs eins og venja er. Greining Glitnis spáði því upprunalega að 12 mánaða verðbólga yrði 11,8 en fyrir helgi breytti Greining Glitnis spá sinni og hækkaði viðmiðið í 12,1%.

Greiningadeild Kaupþings hafði spáð 13% verðbólgu en breytti einnig spá sinni, þó til lækkunar, og gerði fyrir helgi ráð fyrir 12,6% verðbólgu. Forsendur fyrir breyttri spá Greiningadeildar Kaupþings var hröð lækkun íbúðarverðs en Greiningadeildin gerði ráð fyrir að íbúðarverð muni nú hafa lækkandi áhrif á VNV en ekki hækkandi líkt og verið hefur.

Greiningadeild Landsbankans hafði gert ráð fyrir 12,1% verðbólgu. Greiningadeildin telur, líkt og Greiningadeild Kaupþings gerði síðar, að íbúðarverð myndi draga úr verðbólgu en auk þess gerði Greiningadeild Landsbankans ráð fyrir því að verð á bílum myndi lækka lítillega í kjölfar þess að hækkanir á verðskrám nokkurra tegunda gengu að hluta til baka, eins og segir í verðbólguspá þeirra.

Greiningadeildirnar voru þó nokkuð samhljóma í spám sínum. Allar gerðu þær ráð fyrir hækkandi eldsneytis- og matarverði og spáðu því að áfram myndi lækkun gengis krónunnar halda áfram að skila sér út í verðlagið en samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands hækkað verð á bensíni og olíu um 5,7% í maí og verð á innfluttum vörum um 1,7%.

Gera ráð fyrir lækkandi verðbólgu í haust

Greiningadeildirnar gera ráð fyrir mis mikilli verðbólgu í sumar en allar eru þær samhljóma um að verðbólgan muni minnka nokkuð hratt með lækkandi sól og um mitt næsta ár muni verðbólgan vera við verðbólgumarkmið Seðlabankans.