Greiningardeild Arion banka og Greining Íslandsbanka furða sig báðar á hækkun flugfargjalda og matvöruverðs í síðustu verðbólgumælingu Hagstofunnar. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs um 0,5% á milli mánaða og stendur verðbólga í stað í 5,4% á milli mánaða. Þetta er þvert á spár greiningaraðila sem höfðu reiknað með því að draga myndi úr verðbólgu og færi hún undir 5%.

Flugfargjöld hækka um 34% frá áramótum

Greiningardeild Arion banka segir 11% hækkun flugfargjalda koma á óvart, ekki síst þar sem almenna tilhneigingin sé sú að verðið lækki yfir sumartímann. Deildin bendir á að metfjöldi ferðamanna streymi nú til landsins og megi því velta fyrir sér hvort áhrif vegna aukinnar eftirspurnar yfirgnæfi áhifin vegna aukins framboðs sem verið hafi á flugmarkaði.

Greining Íslandsbanka hafði reiknað með því að flugfargjöld myndu lækka á milli mánaða. „Þessi hækkun á flugfargjöldum kemur verulega á óvart enda hefur þessi liður lækkað töluvert í júní á síðustu árum, og virðist aukin samkeppni í greininni að undanförnu ekki ná til mælingu Hagstofunnar,“ segir í Morgunkorni deildarinnar. Þar er bent á að flugfargjöld til útlanda hafi hækkað gríðarlega á skömmum tíma en hækkunin nemur 34% frá áramótum. Önnur eins hækkun hefur ekki sést síðan árið 2002.

Greining Íslandsbanka segir líta út fyrir að eftirspurnaráhrif vegi þyngra en samkeppnisáhrif í mælingum Hagstofunnar en mikil aukning hefur verið í komu ferðamanna til landsins og útlit fyrir að nýtt met verði slegið í fjölda ferðamanna hér í sumar.

Innlend matvara hækkar umfram verðlagsþróun

Greiningadeildirnar setja sömuleiðis spurningamerki við hækkun á matvöruverði á milli mánaða.

Greining Íslandsbanka bendir á að verð á mat- og drykkjarvörum hafi hækkað umfram spár. Það sem helst liggi á bak við hækkunina skýrist af 5,8% hækkun á verði ávaxta í mánuðinum, samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Deildin segir þetta eiga sér staða þrátt fyrir talsverða hækkun á gengi krónunnar undanfarið. „Þar að auki var mun minni lækkun á grænmeti í júní en við höfum reiknað með, eða sem nemur rétt rúmlega 0,1%, en þess má geta að síðustu árin hefur grænmeti að jafnaði lækkað um tæp 7% í júní,“ segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Greiningardeild Arion banka undrast verðþróunina sömuleiðis og segir að þrátt fyrir lækkandi hrávöruverð úti í heimi og styrkingu krónunnar þá haldi matvörur áfram að hækka. Deildin segir hækkunina einkum rekja til hækkana á innlendri matvöru og hafi styrking krónu og lægra hrávöruverð ekki skilað sér út í verðlagið. Af þeim sökum megi gera ráð fyrir hagfelldari þróun á næstu mánuðum.

Greiningardeildin bendir engu að síður á að íslensk framleiðsla hafi hækkað umfram innflutttar vörur og úr takti við verðlagsþróun hér síðustu mánuði.

„Ekki er hægt að kenna veikingu krónunnar og hækkandi hrávöruverði hér um þar sem báðir þessir þættir koma aðeins að hluta inn í verðlagið á innlendum vörum. Engin ein sterk rök eru fyrir þessari umframhækkun á íslenskri framleiðslu, þó má velta því fyrir sér hvort launakostnaðurinn spili hér stórt hlutverk og skýri mismuninn. Hlutfallslega ætti hækkandi launakostnaður að leggjast þyngra á innlenda framleiðendur en innflutta framleiðslu þar sem fleiri starfsmenn þarf til að framleiða hverja íslenska vöru samanborið við þann starfsmannafjölda sem þarf til að flytja inn erlendar vörur. Að sjálfsögðu vekur þessi þróun hins vegar upp spurningar hvort kostnaðarhækkanirnar nægi raunverulega til að skýra 6% árshækkun innlendra vara, samanborið við 3,8% hækkun á innfluttum vörum,“ segir greiningardeild Arion banka.