Greiningardeild Arion banka hefur auglýst eftir nýjum forstöðumanni, en þetta má sjá á vefsíðu bankans. Regína Bjarnadóttir, núverandi forstöðumaður greiningardeildarinnar, lætur af störfum bráðlega.

Í starfslýsingunni kemur fram að helstu verkefni og ábyrgð forstöðumanns sé ábyrgð á daglegum rekstri deildarinnar, þátttaka í stefnumótun og áætlanagerð og þátttaka í gerð hagspár og annarra greininga á helstu hagstærðum. Einnig séu þar kynningar innan og utan bankans og niðurstöðum verkefna deildarinnar og þá komi forstöðumaður fram fyrir hönd bankans varðandi umfjöllun um efnahagslíf.

Óskað er eftir starfsmanni með framhaldsmenntun í hagfræði eða annarri menntun sem nýtist í starfinu og er reynsla af stjórnun talin æskileg. Umsóknarfrestur er til og með 28. apríl næstkomandi.