Greiningardeild Arion banka spáir aukinni verðbólgu í september. Greiningardeildin telur að vísitala neysluverðs hækki um 0,7% í september. Á ársgrundvelli mun verðbólgan því fara úr 4,1% í 4,2% eftir verðhjöðnun í síðasta mánuði.

Greiningardeildin telur verðbólguhorfur fyrir næstu mánuði fara versnandisetja spurningamerki við hvort sú lága verðbólga sem mælst hefur undanfarna mánuði (verðhjöðnun þrjá mánuði af fjórum) hafi verið slembilukka eða sé til vitnis um bættan árangur í baráttunni við verðbólgu.

Bent er á að frá því um miðjan ágúst hefur krónan veikst um ríflega 5%. Þrátt fyrir umtalsverða veikingu á einum mánuði  er þó ekki búið að þurrka út alla þá styrkingu sem hafði átt sér stað nær samfellt frá því í mars (tæplega 12% styrking). Samhliða svo mikilli veikingu hafa verðbólguhorfur þó versnað að mati greiningardeildarinnar sem telur að ársverðbólgan verði komin í 4,5% í árslok.

Greiningardeildin segir sterka krafta togast á í augnablikinu, bæði til hækkunar og lækkunar verðbólgu. Þættir eins og verðsamkeppni á flug- og matvörumarkaði sem og lækkun húsnæðisliðar hafa haft veruleg áhrif til lækkunar á vísitölunni í síðustu mælingum Hagstofunnar. Aftur á móti hefur heimsmarkaðsverð á eldsneyti hækkað sem skilar sér nú rakleiðis í hærri verðbólgu auk þess sem veikingarfasi krónunnar að undanförnu er líklegri til að skila enn frekari hækkunum á öðrum neysluvörum í VNV.Óvissan er mikil að mati greiningardeildarinnar til skamms tíma en til lengri tíma eru kraftarnir sterkari til hækkunar einkum ef krónan heldur áfram að veikjast.