Greiningardeild Arion banka spáir 0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs í júní. Ef spáin gengur eftir mun ársverðbólga mælast 2,2%, samanborið við 2,4% í maí.

Samkvæmt greiningardeildinni skýrist lægri verðbólga aðallega af hóflegri hækkun flugfargjalda og eldsneytis, samanborið við sama mánuð í fyrra. Einnig munu lækkanir á gjaldskrám og krónutölugjöldum koma til framkvæmda i mánuðinum og stuðla að lægri verðbólgu. Það sem hefur helst áhrif á hækkun vísitölunnar er hækkun íbúðaverðs, líkt og síðustu mánuði, auk þess sem gert er ráð fyrir að matarkarfan hækki lítillega. Þá er talið að hækkun skrásetningargjalda í opinberum háskólum muni stuðla að hækkun vísitölu neysluverðs.

Þrátt fyrir að greiningardeildin geri ráð fyrir hækkun íbúðaverðs er talið að sú hækkun verði minni en hefur verið síðustu mánuði.

Uppfærð bráðabirgðarspá fyrir næstu mánuði lítur þannig út að vísitala neysluverðs lækki um 0,3% á sumarútsölum í júlí, hækki um 0,2% í ágúst og 0,5% í september. Ef spáin gengur eftir mun ársverðbólga í september mælast 2,2%.,

Eins og fjallað var um á VB.is í morgun þá spáir greining Íslandsbanka 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs og að ársverðbólga lækki niður í 2,1%.