Greiningardeild Arion Banka spáir óbreyttum vöxtum við vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 6. febrúar. Í Markaðspunktum greiningardeildarinnar segir að hún telji langstærsta óvissuþáttinn frá síðasta fundi snúa að endurskoðun kjarasamninga þann 21. janúar, en peningastefnunefnd hafi allt að því skuldbundið sig til að hækka vexti hefði verið samið um frekari hækkanir en kveðið var á um í samningunum. „Þess gerist ekki þörf, þar sem aðilar vinnumarkaðarins komust að samkomulagi um að fara að gildandi kjarasamningum þar til í lok nóvember. Sú niðurstaða er nokkurnvegin í takt við forsendur spár Seðlabankans, sem sjá má á mynd hér að neðan,“ segir í Markaðspunktunum.

Þar er einnig vikið að Icesave dómnum, sem liggja mun fyrir á mánudaginn. „Í ljósi þess að hér er um viðurkenningardóm að ræða þá er ekki verið að dæma um greiðslur, vexti eða annan kostnað ef til þess kemur að við töpum málinu. Vegna þessa þá teljum við ekki að niðurstaðan muni hafa veruleg áhrif vaxtaákvörðun peningastefnunefndar á næsta fundi. Þá hefur ekki verið minnst á Icesave málið í síðustu yfirlýsingum nefndarinnar sem endurspeglar að áhyggjur þeirra snúa augljóslega fremur að öðrum þáttum.“