Greiningardeild Glitnis hefur lækkað verðmatsgengi sitt á Marel úr 79,0 í 75,0 kr. á hlut. Um leið hefur greiningardeild Landsbankans fært meðmæli sín á bréfum Marel úr yfirvogun í markaðsvogun.

Greiningardeild Glitnis segist meta virði Marel á 27,4 ma.kr. Verðmatsgengið er 3,8% undir gengi á markaði (78,0) og 1,4% yfir útboðsgengi í hlutafjárútboði félagsins í september. "Ráðlegging okkar til fjárfesta er að halda bréfum í Marel horft til lengri tíma. Markgengi til 6 mánaða er 80 kr. á hlut en það er spá okkar um hvar gengi bréfa í félaginu standi að 6 mánuðum liðnum. Markgengið í verðmatinu í september var 84,0 til samanburðar," segir greiningardeild Glitnis.

Greiningardeild Landsbankans bendir á að Marel hefur tvöfaldast á árinu og líklegt er að annað stórt skref til ytri vaxtar verði stigið á næsta ári. Staða félagsins á markaði er sterk, en undirliggjandi rekstur líður tímabundið fyrir öran vöxt.

Það sem af er ári hefur gengi bréfa Marels hækkað umfram Úrvalsvísitöluna, en frá birtingu uppgjörs 7. nóvember hefur gengi Marels lækkað meira en vísitalan. "Verðmat á Marel hefur verið tekið til endurskoðunar og unnið er að nýju verðmati. Miðað við uppfærða vogunarráðgjöf er mælt með markaðsvogun á bréfum félagsins í stað yfirvogunar áður. Ástæða breyttrar vogunarráðgjafar er sú, að gengi bréfa Marels hefur hækkað meira en Úrvalsvísitalan frá birtingu síðustu ráðgjafar," segir greiningardeild Landsbankans.