Greiningardeild Glitnis telur líklegast að seðlabankinn ljúki hækkunarferli stýrivaxta með 0,25 prósentustiga hækkun 2. nóvember. Þó eru nokkrar líkur á að vextir verði ekki hækkaðir frekar, en önnur niðurstaða er ólíkleg að mati okkar, segir greiningardeildin

Þótt flestir séu sammála um að hækkunarferli stýrivaxta Seðlabanka ljúki á þessu ári eru enn skiptar skoðanir um hvort 0,50 prósentustiga hækkun bankans 14. september hafi verið lokahnykkur þessa ferlis.

Þættir sem myndu auka líkur á vaxtahækkun í nóvember eru: Háar verðbólgutölur í október, lækkun gengis á næstu vikum og hagtölur sem sýni hæga hjöðnun þenslu (íbúðaverð, væntingavísitala, innflutningur
neysluvara, atvinnuleysi, launavísitala)

Þættir sem minnka líkur á vaxtahækkun í nóvember eru: Hóflegar verðbólgutölur í október, hækkun gengis krónu í október og hagtölur sem gefi til kynna verulega kólnun í hagkerfinu.

Við teljum að eftir nóvember muni Seðlabankinn halda stýrivöxtum óbreyttum út fyrsta fjórðung næsta árs. Þá hefst lækkunarferli og mun bankinn lækka vextir sína niður í 10% fyrir lok næsta árs, gangi spá okkar eftir, segir greingingardeildin.

Rök fyrir lækkun stýrivaxta á næsta ári eru: hjaðnandi verðbólga, en við teljum að verðbólga verði komin nærri markmiði Seðlabanka í kringum áramótin 2007 - 2008, lok viðamikilla stóriðjuframkvæmda á vordögum, vísbendingar um að farið verði að hægja á hjólum hagkerfisins og hætta á harðri lendingu ef vaxtastiginu er haldið háu of lengi.

Þótt vextir lækki verulega á næsta ári verður aðhald peningastefnu Seðlabanka töluvert. Við teljum að verðbólga muni minnka hraðar en sem nemur lækkun vaxta, segir greiningardeildin.