Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 1,1% í ágúst. Mun tólf mánaða verðbólga þá ná 14,7% samanborið við 13,5% í júlímánuði.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings í dag.

Greiningardeildin býst við háum mánaðarhækkunum neysluverðs næstu þrjá mánuði en ef gengi krónunnar staðnæmist mun töluvert hægja á verðbólgunni í framhaldinu.

„Gera ráð fyrir verðhækkunum í flestum geirum líkt og undanfarna mánuði vegna kostnaðarhækkana sem ekki hefur enn verið velt út í verðlagið. Kostnaðarhækkanir eru m.a. tilkomnar af því að gengi krónunnar er þriðjungi lægra en á sama tíma í fyrra með tilheyrandi áhrifum á innflutningsverð,“ segir Greiningardeild Kaupþings.

„Auk þess hafa fyrirtæki orðið fyrir ýmiskonar kostnaðarauka að undanförnu s.s. vegna hærri fjármagnskostnaðar og hærra hrávöruverðs. Í ofanálag munu útsölulok og innkoma nýrrar vöru valda verðhækkunum nú í ágúst næstu tvo mánuði á eftir.“

Þá er gert ráð fyrir að í ágúst leggi húsnæði, áhrif útsöluloka og matvara mest til hækkunar VNV. Til lækkunar muni eldsneytisverð hinsvegar vega þyngst og nema áhrifin tæplega 0,2 prósentustigum.

Húsnæðisverð áfram til hækkunar

Greiningardeildin segir að þrátt fyrir að horfur séu á einhverjum húsnæðisverðslækkunum á næstu misserum muni kostnaður vegna eigin húsnæðis tæpast vera til lækkunar VNV á allra næstu mánuðum.

„Ástæðan er annarsvegar að lítilsháttar hækkanir hafa mælst á húsnæðisverði allra síðustu mánuði og gildir það sama um nýjustu verðmælingu skv. Fasteignamati ríkisins,“ segir í Hálffimm fréttum.

„Jafnframt hefur vaxtakostnaður vegna húsnæðis að undanförnu vigtað töluvert til hækkunar – til að mynda voru áhrifin 0,08 prósentustig til hækkunar í júlí sl. Því gæti orðið nokkur bið á að húsnæðisliðurinn fari að hafa áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs.“