Greiningardeild Kaupþings segir helstu skilaboð Peningamála Seðlabankans sem birt voru í dag, virðast vera þau að ef tæknilegir örðugleikar komi í veg fyrir fulla virkni stýrivaxta á gjaldeyrismarkaði - þá sé ekkert annað hægt að gera en hækka vexti meira eða halda þeim háum í lengri tíma.

Þannig sé vaxtalækkunum skotið á frest samkvæmt spám bankans þrátt fyrir að íslenskt hagkerfi sé auðsjáanlega að kólna hraðar en spár bankans gerðu áður ráð fyrir, eins og Greiningardeild Kaupþings orðar það í Hálffimm fréttum sínum í dag.

Eins og kunnugt er hélt Seðlabanki Íslands stýrivöxtum sínum óbreyttum í 15,5% í dag samhliða því að birta nýjar hagspár í riti sínu, Peningamálum.

„Hins vegar, að mati Greiningardeildar, má velta fyrir sér hve lengi þessu stranga vaxtaaðhaldi verði haldið til streitu í ljósi þess hvað kæling íslenska hagkerfisins virðist vera að gerast hratt. Jafnframt má velta fyrir sér vísdómi þess að halda vöxtum svo háum til þess að bæta upp fyrir lélega virkni á gjaldeyrismarkaði – þegar áhrif hárra vaxta á atvinnulífið gætu orðið verulega sár og kostnaðarsöm þegar líður á næsta vetur,“ segir Greiningardeildin.

Í Peningamálum kom fram að verðbólguhorfur hafi versnað, m.a. vegna veikara gengis. Verðbólguspá Seðlabankans gerir jafnframt ráð fyrir því að gengisvísitalan haldist í 160 út spátímann og gerir bankinn ekki ráð fyrir því að hafa stuðning af gengisstyrkingu til þess að ná verðbólgu niður.

Greiningardeild Kaupþings metur það sem svo að þess í stað verði verðbólgan þvinguð út úr kerfinu með háum vöxtum en vaxtaspá Seðlabankans gerir nú ráð fyrir því að vextir haldist háir næstu þrjá ársfjórðunga og að vaxtalækkunarferlið hefjist á öðrum ársfjórðungi 2009. Seðlabankinn spáir því nokkuð harðri lendingu hagkerfisins og verður hagvöxtur t.a.m. neikvæður um 2% á árunum 2009 og 2010.