Greiningardeild Kaupþings banka hefur gefið út nýtt verðmat á Alfesca, Bakkavör, Marel, Össuri og Vinnslustöðinni og gerir breytingar á verðmati á þremur af þessum félögum.

Um er að ræða stutta samantekt um hvert félag sem gefin er út í ritinu Small Cap Navigator, samnorrænni útgáfu greiningardeilda Kaupþings Banka á Norðurlöndunum.

Greiningardeildin breytir verðmati sínu á Bakkavör, Marel og Össuri, frá fyrri greiningu. Í febrúar voru gefin út verðmöt fyrir bæði Alfesca og Vinnslustöðina. Ekki þótti ástæða til þess að breyta þeim.

Össur er metið á 119 krónur á hlut. Við lok markaða í dag var gengi Össurar 115 krónur á hlut. "Target Price" til tólf mánaða er 131 króna á hlut og mælir greiningardeildin með því að fjárfestar auki við sig í félaginu.

Greiningardeildin hækkar verðmatið á Bakkavör í 53,5 krónur á hlut, úr 44,5 krónum á hlut. Gengi Bakkavarar Group er 54 krónur á hlut við lok markaða í dag, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands. Ráðleggur greiningardeild Kaupþings banka að fjárfestar minnki við hlut sinn í Bakkavör.

Marel er metið á 66,6 krónur á hlut. Greiningardeildin mælir með því að fjárfestar minnki við hlut sinn í félaginu. Gengi Marels er 75,5 krónur á hlut við lok markaða í dag, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands.