Greiningardeild Kaupþings hefur endurskoðað verðbólguspá fyrir apríl til hækkunar og hljóðar spáin nú upp á 0,85% hækkun vísitölu neysluverðs, sem er um 0,1 prósentustigs hækkun frá fyrri spá.

Ef spáin gengur eftir fer tólf mánaða verðbólga úr 4,5% upp í 5,1% í næsta mánuði.

Greiningardeildin segir ástæðu hækkunarinnar liggja fyrst og fremst í meiri hækkun eldsneytisverðs, en eldsneyti hefur hækkað um níu krónur eða 8% frá því í byrjun mars en í fyrri spá var gert ráð fyrir 5% hækkun.

Samtals hefur hækkun eldsneytisverðs 0,35% til 0,4% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.

Einnig gerir greiningardeildin ráð fyrir heldur meiri hækkun á matvöru en áður, en gengi krónunnar hefur veikst um 5% síðan að fyrri spá var gefin út sem hefur ýtt upp eldsneytis og matvælaverði.