Greiningardeild Kaupþings segir að íslensku bankauppgjörin virðast hafa staðfest að Íslenska hagkerfið er ekki að „bráðna" þrátt fyrir mikið gengisfall, verðbólgu og títt endurteknar dómsdagsspár, eins og það er orðað í Hálffimm fréttum í dag.

Greiningardeildin segir bankana þrjá hafa skilað þokkalegri afkomu, hafa samtals  um 25 milljarða evra í lausafé, hafa töluverða möguleika á að nýta sér endurhverfanleg viðskipti við erlenda seðlabanka, innlánsreikningar á netinu hafi sýnt gildi sitt sem stöðug og hagkvæm fjármögnun en auk þess hafi bankarnir getað sýnt fram á fjármögnun með lokuðum skuldabréfaútboðum.

„Allt þetta virðist benda til þess að íslensku bankarnir séu nálægt því að komast yfir fyrsta hjallann í núverandi fjármálakreppu - að sanna það að þeir geti haldið fullum seljanleika þrátt fyrir að markaðir fyrir útgáfu ótryggðra skuldabréfa  (e. uncollaterilized public debt ) séu lokaðir og Seðlabanki Íslands geti ekki þjónað sem lánveitandi til þrautarvara þegar kemur að erlendri fjármögnun,“ segir í Hálffimm fréttum.

„Og þá um leið hrint frá öllum bollaleggingum um að íslenska fjármalakerfið geti lagst á hliðina í bankaáhlaupi. Næsti hjalli sem bankarnir verða að komast yfir er að sýna fram að rekstur þeirra geti staðist fremur harða lendingu íslenska hagkerfisins á næsta vetri.“

Íslensku bankarnir munu njóta sammælis

Greiningardeild Kaupþings segir að gagnrýnin augu greinenda  virðist vera að færast frá því að horfa á skuldahliðina - þ.e. fjármögnun - og yfir á eignahliðina - s.s. gæði útlána.

„Það er mjög jákvætt og leiðir til þess að íslensku bankarnir þrír munu þá í auknum mæli fara að njóta sannmælis og verða dæmdir af rekstri sínum fremur en sameiginlegum íslandsstimpli,“ segir Greiningardeildin.

„Þegar fram sækir skiptir höfuðmáli að sýna fram á góðan grunnrekstur og gæði eignasafns.  Ef svo fer fram sem horfir gætu kjör ríkisins fyrir nýja skuldabréfaútgáfu farið að batna og stækkun gjaldeyrisforðans gæti þannig skotið betri stoðum undir gjaldeyrismarkaðinn og mögulegt vaxtalækkunarferli,“ segir Greiningardeild Kaupþings í Hálffimm fréttum.