Eins og áður hefur komið veiktist krónan nokkuð í dag eða um 3%. Gengisvísitalan hefur aldrei verið hærri og stendur í 181,5 stigum.

Greiningardeild Kaupþings bendir í Hálffimm fréttum í dag að krónan hefur nú veikst á þrettán af sautján viðskiptadögum mánaðarins og nemur veikingin um 14% það sem af er september.

Erfiðar aðstæður og áhættufælni mikil

Greiningardeild Kaupþings segir að ekki liggi á reiðum höndum hvað það er helst sem veldur veikingu krónunnar. Þó sé óhætt að segja að afar fátt styðji við krónuna í augnablikinu.

„Á meðan óvissa ríkir um afleiðingar nýjustu aðgerða bandaríska seðlabankans má ætla að stöðutaka í krónunni muni minnka,“ segir í Hálffimm fréttum.

„Ljóst er að mikil áhættufælni á erlendum mörkuðum hefur komið sér illa fyrir hávaxtamyntir líkt og íslensku krónuna. Sömuleiðis hefur erfitt aðgengi viðskiptabankanna að erlendu lausafé komið mjög sterkt fram á gjaldmiðlaskiptamarkaði – þar sem ekki eru lengur krónuvextir í boði nema að litlu leyti.“

Greiningardeild Kaupþings segir þetta endurspegla svipaða þróun og á mörgum öðrum gjaldeyrismörkuðum þar sem skortur eftir dollurum og evrum hefur verið mikill og álag hækkað mikið.

Seðlabankar hafa víða brugðist við vandanum með að bjóða bönkum upp á endurhverf viðskipti í annarri mynt en heimagjaldmiðli.

Þá kemur fram í Hálffimm fréttum að skilvirkni gjaldeyrismarkaða hefur víða annars staðar batnað í kjölfarið.

„Meðan þessi staða er uppi á gjaldmiðlaskiptamarkaði er afar erfitt fyrir útgefendur krónubréfa að framlengja eða gefa út ný bréf í stað þeirra sem eru nú á gjalddaga – og setur um leið þrýsting á krónuna,“ segir í Hálffimm fréttum.