Gengi krónunnar veiktist um 3% í dag. Greiningardeild Kaupþings segir að því haldi áfram sú veikingarhrina sem einkenndi seinni hluta september og ekki sér enn fyrir endann á.

Gengisvísitalan hefur nú lækkað um tæp 27% á einum mánuði gagnvart erlendum gjaldmiðlum og stendur evran í um 153,8 krónum, Bandaríkjadalur í 109,4 krónum og sterlingspund í 194,6 krónum.

Greiningardeildin spyr í Hálffimm fréttum sínum: Hvar er Seðlabankinn? Og útskýrir:

„Á síðustu vikum hafa fjármálastofnanir um víða veröld hamstrað allt það lausafé sem þau mögulega geta - sem hefur leitt til þess að gjaldeyrismarkaðir eru hættir að virka með eðlilegum hætti. Seðlabankar um víða veröld hafa brugðist við og dælt öllu því lausafé sem þeir mega inn á fjármálamarkaði – í innlendum og erlendum gjaldmiðlum,“ segir hún.

Greiningardeildin segir að íslenskir bankar hafi fundið fyrir þessum þrengingum og hafa væntanlega brugðist með því að halda í hvern dollar og hverja evru.

„Vonir stóðu til að þegar komið væri fram yfir mánaðarmót og væntanlegur björgunarpakki frá bandarískum yfirvöldum næði fram að ganga færu gjaldeyrismarkaðir í eðlilegra horf. Seðlabanki Íslands hefur frá áramótum einungis dælt nettó um 40 milljörðum króna inn á markaðinn. Þrátt fyrir aukin endurhverf viðskipti hefur stóraukin ríkis- og útgáfa innstæðubréfa hreinsað krónur aftur út úr kerfinu. Á sama tíma geisa einhverjir mestu stormar á fjármálamörkuðum í manna minnum,“ segir greiningardeildin í Hálffimm fréttum í dag.