Greiningardeild Kaupþings banka telur ekki að eignabóla hafi myndast á fasteignamarkaði og segir fasteignaverð í Reykjavík hátt en ekki ofmetið.

Greiningardeildin bendir á að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 25% á síðasta ári og um 67% frá því að bankarnir hófu að bjóða upp á íbúðalán í ágúst 2004.

"Eftir slíkar hækkanir er eðlilegt að spyrja hvort að eignabóla hafi myndast á fasteignamarkaðnum," segir greiningardeildin, og bendir á að ein leið til að athuga hvort fasteignamarkaðurinn hér á landi hafi farið fram úr sjálfum sér er að bera saman fasteignaverð hér á landi saman við það sem tíðkast í nágrannalöndunum.

Af tuttugu og tveimur höfuðborgum í Evrópu er fasteignaverð í Reykjavík það áttunda hæsta. Fasteignaverð á Norðurlöndum er hátt í samanburði við arðrar borgir Evrópu og er fasteignaverð í Reykjavík í takt við fasteignaverð á hinum Norðurlöndunum, samvæmt greiningardeildinni.

"Það eru fjölmargir þættir sem stjórna fasteignaverði svo sem tekjur og fjármagnskostnaður. Sé fasteignaverð í Evrópu hinsvegar leiðrétt fyrir tekjum og fjármagnskostnaði lækkar verðmunur milli dýrustu og ódýrustu borga Evrópu úr því að vera tífaldur niður í fimmfaldan. Þannig útskýra tvær framangreindar breytur að stórum hluta mismun í verði fasteigna," segir greiningardeild Kaupþings.

"Verðmunur milli Austur-og Vestur Evrópu hverfur alveg við þessa leiðréttingu. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir tekjum verður fasteignaverð í Reykjavík það þrettánda hæsta af höfuðborgum Evrópu. Ef leiðrétt er einnig fyrir vöxtum verður fasteignaverð í Reykjavík það níunda hæsta af höfuðborgum Evrópu"

Greiningardeildin segir að í kjölfar nútímavæðingar íslenska fasteignamarkaðarins í ágúst 2004 hefur fasteignaverð hækkað 67% en helming hækkunarinnar má rekja til lækkunar fjármagnskostnaðar, hinn helminginn má að stærstum hluta rekja til mikils hagvaxtar og launahækkana.

"Viðlíka hækkanir á fasteignaverði og í Reykjavík eru ekkert einsdæmi og má nefna Kaupmannahöfn, Dublin og Aarhus. Fasteignaverð í Kaupmannahöfn hefur hækkað um 373% síðustu 9 ár og um 15,7% á ári. í Dublín hefur fasteignaverð hækkað 283% og um 12,3% á ári, í Reykjavík um 207% og um 8,4% á ári og í Aarhus um 187% og 7,2% ár ári"

Að mati greiningardeildarinnar "mun verulega hægja á hækkunum fasteignaverðs á næstunni og spáir Greiningardeild um 5% hækkun á fasteignaverði á næstu 12 mánuðum. Að mati Greiningardeildar hefur fasteignamarkaðurinn því náð jafnvægi og verður þróun fasteignaverðs nær í takt við almenna verðlagsþróun."