Greiningardeild Kaupþings Banka spáir 0,2% hækkun á vísitölu neysluverðs (VNV) í desember og mun 12 mánaða verðbólga þá mælast 7,1%.

Að þessu sinni mun hækkun húsnæðisliðarins og hærra verð á matvælum, þjónustu og fatnaði leggja mest til hækkunar á VNV að mati Greiningardeildar. Lækkun eldsneytisverðs mun hins vegar vega á móti.

Matvælaverð hefur lækkað um 1% á síðustu tveimur mánuðum en Greiningardeild gerir ráð fyrir nokkurri hækkun í desember eða um 0,5%. Að auki spáir Greiningardeild hækkun á verði þjónustu milli mánaða meðal annars vegna aukins launakostnaðar fyrirtækja. Einnig er algengt að hótel og veitingastaðir hækki verðskrár í jólamánuðinum. Til viðbótar má búast við einhverri hækkun á fatnaði og skóm í mánuðinum eins og raunin hefur verið í desember á síðustu árum, segir Greiningardeildin.

Á síðustu þremur mánuðum hefur húsnæði að meðaltali hækkað um aðeins 0,3% á mánuði samkvæmt Fasteignamati Ríksins, en fasteignaverð lækkaði um 2,2% í október. Á síðustu 12 mánuðum hefur fasteignaverð hækkað um tæp 7,2% og hefur tólf mánaða hækkunarhraðinn ekki verið lægri síðan í september 2002. Tekið er mið af meðal hækkun fasteignaverðs á síðustu þremur mánuðum í VNV og því mun hækkun fasteignaverð ásamt hærri raunvöxtum leiða til um 0,05% til 0,08% hækkunar á vísitölunni nú samkvæmt mati Greiningardeildar.

Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur lækkað mikið að undanförnu sem hefur leitt til þess að bensínverð hefur lækkað um tæpt 1% það sem af er mánuðinum. Á móti kemur hefur gengi krónunnar veikst um rúm 3% í nóvember. Tekið saman gerir Greiningardeild ráð fyrir að eldsneytisverð muni lækka í heild um 1,5% milli mánaða og leiða til 0,09% lækkunar á VNV.

Greiningardeild gerir ráð fyrir því að 12 mánaða verðbólga haldist í kringum 7% fram til mars á næsta ári þegar hún tekur að lækka nokkuð skarpt og nær verðbólgumarkmiði á seinni hluta árs. Yfir árið 2007 gerir Greiningardeild ráð fyrir um 2,4% verðbólgu.