Greiningardeild Kaupþings spáir því að kólnunin í hagkerfinu muni vara fram á mitt næsta ár.

Í nýrri hagspá deildarinnar, undir yfirskriftinni „Efnahagshorfur að vori“, kemur fram að á spátímabilinu, 2008-2010, muni samdráttur þjóðarútgjalda nema 7%.

Einkaneysla muni dragast saman á þessu og næsta ári, en aukast árið 2010, þegar álverið á Helguvík tekur til starfa. Deildin spáir því að neysla heimilanna dragist saman um 10% á næstu tveimur árum, og að kaupmáttur heimilanna dragist saman um rúmlega 4% á árinu, en ekki hefur mælst meiri rýrnun kaupmáttar í 18 ár.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir miklu verðbólguskoti á þessu ári, en hratt muni draga úr verðbólgunni á næsta ári. Deildin gefur sér þá forsendu að þjóðarsátt skapist á næstunni.