Greiningardeild KB banka álítur að verðbólguvæntingar fjárfesta séu nú í hæsta lagi en til að mynda spáir KB banki óbreyttri vísitölu neyrsluverðs í júlí. ÞVí telur Greiningardeild KB banka að myndast hafi kauptækifæri í ríkisbréfum þar sem verðlagning þeirra á markaði taki mið af of háum verðbólguvæntingum.

Í Hálf fimm fréttum KB banka segir að verðbólguvæntingar fjárfesta hafi hækkað töluvert að undanförnu í takt við hækkandi verðbólgu, verðbólguvæntingar til 3 ára eru nú 3,9% og 3,75% til 6 ára. Bent er á að væntingar fjárfesta um framtíðina hafi löngum mótast af þróun fortíðar en sú virðist einmitt vera raunin nú um stundir á skuldabréfamarkaði. En að mati Greiningardeildar KB banka bendir fátt til þess að verðbólguhraði síðastliðinna mánaða muni halda áfram. Þannig bendi flest til þess að eldsneytisverð á heimsmarkaði fari lækkandi, en bensínverð gaf eftir um heil 14% milli júní og maí. Bent er á að hækkun eldsneytisverðs milli apríl og júlí hafði 0,9% áhrif vísitölu neysluverðs til hækkunar á þessu tímabili. Sömuleiðis getur sú mikla hækkun sem hefur verið á fasteignamarkaði vart haldið áfram mikið lengur án þess að ójafnvægi myndist á fasteignamarkaði að mati KB banka. Telur bankinn miklar líkur á að staðgreiðsluverð fasteigna fari lækkandi þótt að kaupverðið fari e.t.v. hækkandi á næstunni. Ástæða þess liggur í að eftir 1 júlí verður yfirverð á húsbréfum ekki lengur til staðar og það verður að teljast harla ólíklegt að kaupendur séu til í að taka á sig rúmlega 600 þúsund króna hækkun á fasteignaverði á einni nóttu. Það séu því nokkrar líkur á að eldsneytisverðs og fasteignaverð fari lækkandi á næstunni en ljóst er að seinni liðurinn getur haft úrslitaáhrif á verðbólguþróun næstu mánaða. Að mati Greiningardeildar eru verðbólguvæntingar ekki raunsæjar nú um stundir og virðast fremur endurspegla mat fjárfesta á verðbólgu fortíðar fremur en framtíðar. Það er því kauptækifæri í ríkisbréfum en þau hafa fallið frekar mikið í skuggann af nýju íbúðabréfunum upp á síðkastið.