Greiningardeild Landsbanka Íslands telur að lækkun á lánshæfismati norska tryggingafélagsins NEMI í BBB-mínus úr BBB geti dregið úr vaxtarmöguleikum félagsins.

Greint var frá ákvörðun Standard & Poor's um að lækka lánshæfismatið í Viðskiptablaðinu í dag, en matsfyrirtækið segir ástæðuna vera að Tryggingarmipstöðin (TM) fjármagnaði yfirtöku á NEMI með víkjandi lánum (e. subordinated loans). Mögulegt er að lánshæfismatið verði lækkað enn frekar.

TM keypti um 90% hlut í NEMI í apríl síðastliðnum og reiknað er með að fyrirtækið muni eignast norska félagið að fullu.

"Ekki er ólíklegt að lægri lánshæfiseinkunn dragi úr möguleikum NEMI til vaxtar þar sem einhverjir viðskiptavinir vilji síður tryggja sig hjá félagi með lágt lánshæfi. Þetta á sérstaklega við ef einkunnin verður lækkuð frekar," segir greiningardeild Landsbankans.

?TM hlýtur því að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að einkunnin lækki. Samkvæmt upplýsingum frá TM er ákvörðunin nú til endurskoðunar að ósk NEMI og á næstu tveimur vikum munu verða færð fram rök og gerðar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja traust mat á NEMI."

TM tilkynnti ekki um lækkun lánshæfismats NEMI til Kauphallar Íslands, sem greiningardeildin segir miður þar sem lækkunin á lánshæfismatinu getur haft áhrif á virði samstæðunnar að mati Landsbankans.