Greiningardeild Landsbankans telur að Seðlabankinn muni fylgja eigin stýrivaxtaspá eftir næstu misserin. Þetta kemur fram í Fókus greiningardeildarinnar, sem hægt er að nálgast á pdf-skjali hér .

Meðal þess sem kemur fram í Fókus greiningardeildar er að verðbólguvæntingar til langs tíma hafa hækkað umtalsvert, en samkvæmt útreikningum Seðlabankans eru væntingar um að verðbólga verði enn um 5% eftir 10 ár.

Verðbólga hefur aukist gríðarlega undanfarna mánuði. Til viðbótar við veikingu krónunnar hefur heimsmarkaðsverð á olíu og hrávörum hækkað mikið, kaupmáttartrygging var sett inn í kjarasamninga og líkur á frekari stóriðjuframkvæmdum hafa aukist verulega svo dæmi séu nefnd.

Í Fókus kemur einnig fram að þjóðhagsspá Seðlabankans sýni 2,5% samdrátt landsframleiðslu 2009 og 1,5% 2010. Vaxandi atvinnuleysi og fallandi kaupmáttur í kjölfar þessa samdráttar séu að mati Seðlabankans nauðsynlegur kostnaður við það að koma hagkerfinu í jafnvægi og ná niður verðbólguvæntingum. Greiningardeild Landsbankans telur þó ólíklegt að svo djúp efnahagslægð sé framundan þar sem vaxandi útflutningstekjur og frekari erlendar fjárfestingar komi til með að styðja við efnahagslífið á næstu árum.