Greiningardeildir viðskiptabankanna þriggja spáðu því að hagnaður Icelandic Group á öðrum ársfjórðungi væri frá 20 milljónum króna að 321 milljón króna. Félagið gerir upp í evrum og nam hagnaður þess 1,3 milljónum á fjórðungnum, sem er um 117 milljónir króna, miðað við gengið við lok dags.

Greiningardeild Kaupþings banka segir uppgjörið þokkalegt, greiningardeild Glitnis segir það lítillega undir væntingum og greiningardeild Landsbankans segir afkomu Icelandic Group á öðrum ársfjórðungi undir væntingum.

?Hagnaður félagsins nam aðeins um 1,3 milljónum evra (117 milljónir króna) samanborið við spá okkar um 5,7 milljóna evra (512 milljónir króna) hagnað. Megin frávik frá spá felst í vanmati á kostnaði við endurskipulagningu sem staðið hefur yfir í töluverðan tíma og enn sér ekki fyrir endann á," segir greiningardeild Landsbankans.

Greiningardeild Kaupþings banka spáði 20 milljón króna hagnaði. "Má segja að uppgjörið sé þokkalegt, yfir væntingum greiningardeildar í flestum liðum nema tekjum sem voru lægri en spá okkar gerði ráð fyrir. EBITDA félagsins er mun betri en spá okkar gerði ráð fyrir, 1.062 milljónir króna, samanborið við 486 milljón króna í spá okkar. Skýrist þessi munur að miklu leiti vegna söluhagnaðar af sölu kæligeymslu í Everett, sem nam um 311 milljónum króna. Annars höfðum við ofáætlað áhrif hás afurðaverðs, sem var mjög hátt á öðrum ársfjórðungi," segir greiningardeild Kaupþings banka.

Greiningardeild Glitnis spáði að hagnaður Icelandic Group næmi 321 milljón króna og þykir afkoma félagsins lítillega undir væntingum.