Greiningardeildir bankanna starfa nú með öðrum hætti en þær gerðu áður en ríkið tók yfir bankana.

Vegvísir Landsbankans hefur ekki komið út frá 8. október síðastliðnum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var Greiningardeild Landsbankans lögð niður við endurskipulagningu bankans.

Hluti hennar var þó ráðinn til baka, þar á meðal Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður deildarinnar. Greiningardeildin sinnir nú eingöngu innri ráðgjöf fyrir bankann.

Svipaða sögu er að segja af Greiningardeild Kaupþings. Hálffimm fréttir Kaupþings hafa ekki komið út frá því á þriðjudag og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur útgáfu þeirra verið hætt í bili.

Greiningardeild Kaupþings mun þó áfram gefa út hagspár auk þess að sinna innri ráðgjöf bankans. Forstöðumaður deildarinnar, Ásgeir Jónsson starfar áfram hjá bankanum.

Greining Glitnis er nú eina greiningardeildin sem gefur út daglegt fréttabréf, Morgunkorn Glitnis. Þar hefur þó verið skorið niður í mannafla samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins og starfa aðeins þrír einstaklingar hjá deildinni, þar á meðal Ingólfur Bender, forstöðumaður.