Í Vegvísi Landsbankans í dag segir að bið eftir útfærslu boðaðrar útgáfu ríkisbréfa næstkomandi fimmtudag hafi líklega átt einhvern þátt í veikingu krónunnar í dag. Eins og fjallað hefur verið um veiktist krónan um 3% í dag og hefur aldrei verið lægri. Gengisvísitalan er nú 168,15 stig.

„Eins og reynslan af margumtalaðri lántöku ríkisins til þess að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans sýnir þá geta yfirlýsingar um aðgerðir haft öfug áhrif þegar að tíminn líður og ekki bólar á umræddum aðgerðum. Þegar sífellt er beðið eftir hagstæðari kjörum skapast sú hætta að þau versni frekar. Það er líklegt að krónan verði áfram veik á meðan beðið er eftir boðaðri lántöku,“ segir í Vegvísi.

Í hálffimm fréttum Kaupþings segir að áhættufælni hafi aukist verulega frá því í byrjun maí. Hávaxtamyntir hafi tilhneigingu til að veikjast þegar áhættufælni fer vaxandi á erlendum mörkuðum og því megi segja að „stemningin hér á landi hafi fylgt í kjölfarið sem endurspeglast m.a. í veikingu krónunnar. Hækkandi skuldatryggingarálög á ríkið og bankana, sem endurspeglast m.a. í skertum vaxtamuni á gjaldmiðlaskiptamarkaði, hafa jafnframt mikið að segja um veika stöðu krónunnar.“