Greiningardeildir bankanna spá samtals 46 milljarða króna tapi á rekstri fyrirtækja í Kauphöllinni á fjórða ársfjórðungi 2007. Á fjórða fjórðungi ársins 2006 nam hagnaður sömu fyrirtækja 77,5 milljörðum króna. Meðalspá deildanna fyrir Glitni [ GLB ], Kaupþing [ KAUP ] og Landsbanka [ LAIS ] hljóðar upp á heildarhagnað upp á 20 milljarða króna á fjórðungnum, borið saman við 41 milljarðs króna hagnað á fjórða ársfjórðungi 2006. Sveifla í afkomu FL Group á milli ára nemur 99 milljörðum króna, ef marka má meðalspána, og hefur þannig úrslitaáhrif á heildarsveifluna milli ára, en hagnaður félagsins á fjórða fjórðungi 2006 var 39 milljarðar króna, miðað við áætlað 60 milljarða króna tap á sama tímabili 2007. Greiningardeild Landsbanka gaf síðust deildanna út afkomuspá í gær. Samkvæmt spánni hækkar Úrvalsvísitalan um 0-5% á árinu 2008, en áður hafði greiningardeild Glitnis spáð 14% hækkun og Kaupþings 8,5% hækkun á árinu. Nánar tiltekið segir Landsbanki að gangi spá hans eftir muni Úrvalsvísitalan standa í 6450 stigum, sem nemur 2% árshækkun. Miðað við það gerir meðalspá deildanna ráð fyrir 8% hækkun Úrvalsvísitölunnar á árinu 2008.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér .