Jón Ævar Pálmason hlaut í desember síðastliðnum viðurkenningu Fjármálaeftirlits Seðlabankans sem tryggingastærðfræðingur, sá fyrsti í tæpan áratug og aðeins sá þriðji á þessari öld.

Jón vinnur raunar hjá Fjármálaeftirlitinu við áhættugreiningu lífeyrissjóða og vátryggingafélaga, og hefur gert það í ríflega hálfan áratug. Hann er ekki nýlærður tryggingastærðfræðingur, heldur byggir viðurkenningin á námi sem hann lauk vestanhafs fyrir hartnær áratug, auk þeirrar þekkingar sem hann hefur öðlast í starfi síðan þá.

Jón flutti með konu sinni, Þórhildi Kristinsdóttur, og dætrum þeirra vestur um haf rétt fyrir hrun þegar Þórhildur fór þar í sérnám í öldrunar- og líknarlækningum, og Jón lauk þar tryggingastærðfræðináminu árið 2012. Þau fluttu heim aftur árið 2014 og ári síðar hóf hann störf hjá Fjármálaeftirlitinu.

Stærðfræðiprófessor kynnti hann fyrir græna egginu
Jón hefur gaman af því að elda góðan mat, sér í lagi á grilli sem kallað er Stóra græna eggið , eða „Big green egg“ á frummálinu.

Grillið er svokallað kamado-grill, og eins og nafnið gefur til kynna er það grænt að lit og í laginu eins og risavaxið egg sem stendur upprétt. „Það var nágranni minn í Bandaríkjunum sem kom mér upp á lagið við þetta. Hann er stærðfræðiprófessor, og flutti í burtu í ár, og bað mig þá um að passa grillið sitt á meðan, sem honum var mjög annt um.“

„Kaninn er mjög hrifinn af þessu. Það eru haldnar heilu hátíðirnar í kring um þetta, meðal annars Eggtoberfest , sem hvelfist um eggið græna. Á því er grillað á harðviðarkolum, sem gefur alvöru grillbragð. Það er hægt að hægelda og reykja og gera allskonar kúnstir í þessu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .