Verið er að leggja lokhönd á frumvarp sem skyldar eigendur fjármálafyrirtækja til að upplýsa um eigendur sína í ársreikningi. Er þá átt við endanlega eigendur sem felur í sér að sé eignarhald falið félagi þarf að skýra frá hverjir eigendur þess félags eru, o.s.frv.

„Sérstaklega á ekki að vera neinn vafi á því þegar aðilar eru komnir með, eða eru við það að eignast, ráðandi hlut í fjármálafyrirtækjum. Það vill svo til að við erum að fara yfir lög um fjármálafyrirtæki og erum að leggja lokahönd á frumvarp um breytingar á þeim. Ég geri ráð fyrir því að á meðal þeirra breytinga sem við munum leggja þar til er að það verði gerð krafa um að í skýringum með ársreikningum fjármálafyrirtækja sé alltaf upplýst um alla þá sem eiga meira en eitt prósent í fyrirtækinu,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, við Fréttablaðið í dag.