Með það að leiðarljósi að haga ráðstöfun sölutekna Símans þannig að hún valdi ekki aukinni þenslu í efnahagslífinu hefur ríkisstjórnin ákveðið að þeim hluta söluandvirðisins sem greiddur var í erlendri mynt, eða 32,2 milljörðum króna, verði varið til þess að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs á árinu 2005. Þessi ráðstöfun dregur jafnframt úr vaxtagreiðslum ríkissjóðs og stuðlar þannig að meiri afgangi á ríkissjóði en ella.

Afgangur söluteknanna verður að mestu lagður inn á reikning í Seðlabankanum fram til ársins 2007 sem mun skila ríkissjóði umtalsverðum vaxtatekjum og koma í veg fyrir þensluáhrif á sama tíma og stóriðjuframkvæmdirnar eru í hámarki.