Tölur um greiðslukortaveltu í febrúar benda til að neysla Íslendinga sé enn að aukast frá sama tíma fyrir ári og frekar bætist í vöxtinn en að dragi úr honum, segir greiningardeild Glitnis.

Vöxtur kreditkortanotkunar frá sama mánuði 2005 var 24,7% samanborið við um 20% vöxt næstu tvo mánuði þar á undan.

Vöxt kreditkortanotkunar má bæði rekja til innlendrar og erlendrar notkunar.

Samanlögð greiðslukortanotkun, debet- og kreditkort, í febrúar jókst um 7,8% frá febrúar í fyrra og um 15,9% án debetkortanotkunar í bönkum.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að gengislækkun krónunnar undanfarna daga muni, þegar frá líður, draga úr kreditkortanotkun erlendis sem hefur verið mikil undanfarið.

Jafnframt því mun hún einnig hafa áhrif á kaup á innfluttum vörum þegar nýtt gengi hefur komið fram í verðlagi þeirra.

Því má búast við að nokkuð hægi á vexti greiðslukortanotkunar, og þar með neyslu, þegar líður á árið ef krónan styrkist ekki frá því sem nú er.

Heildar debetkortanotkun í febrúar jókst frá febrúar 2005 um 2,1%. Nokkuð misvægi er milli notkunarstaða debetkortanna.

Má þar nefna að debetkortanotkun í bönkum dróst saman um 8,4% frá febrúar í fyrra en jókst um 13,7% í verslun.

Til að skoða greiðslukortanotkun sem vísbendingu um einkaneyslu er eðlilegra að skoða hana án greiðslukortanotkunar í bönkum.

Greiningardeild Glitnis telur að sá liður fari minnkandi þar sem einstaklingar nota greiðsluþjónustu bankanna og heimabanka í æ meira mæli til að greiða reikninga.

Það að sá liður dragist saman er því eðlilegt og ætti hann að vera undanskilinn veltu með greiðslukort þegar hún er skoðuð sem vísbending um einkaneyslu. Samkvæmt þessum tölum er því enn vöxtur í einkaneyslu hér á landi.

Ekki má horfa framhjá því að fyrirtæki eru einnig með debetkort en líklegast er að notkun þeirra sé að mestu í bönkum.