Samkvæmt tölum Seðlabankans nam greiðslukortavelta í marsmánuði rúmum 55 milljörðum króna. Af því var velta vegna kreditkortanotkunar 24,7 milljarðar króna en velta með debetkort nam 20,6 milljörðum króna í mánuðinum.

„Eftir mikla neyslugleði undanfarin misseri virðast lakari efnahagshorfur, óvissa á fjármálamörkuðum og aukin svartsýni neytenda hafa hvatt heimilin til aukins aðhalds í marsmánuði ef marka má tölur yfir greiðslukortaveltu,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Raunþróun kreditkortanotkunar, að viðbættri notkun debetkorta í innlendum verslunum, hefur undanfarin ár gefið allglögga mynd af þróun einkaneyslu. Í þessari þróun hefur verið allskarpur viðsnúningur undanfarna mánuði, og í mars reyndist raunvöxtur slíkrar kortanotkunar 1% á milli ára og hefur hann ekki verið hægari undanfarið ár að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

Einkaneysla nemur um 60% af vergri landsframleiðslu

Greitt er fyrir stærstan hluta einkaneyslu með greiðslukortum og gefa þessar tölur því ágæta mynd af þróun hennar, en einkaneysla nam á síðasta ári um 60% af vergri landsframleiðslu og hefur þróun hennar því mikil áhrif á hagvöxt.

„Miðað við þessar tölur má ætla að nokkuð hafi hægt á eftirspurn heimilanna á 1. fjórðungi ársins. Aðrar vísbendingar um einkaneyslu á borð við væntingavísitölu Gallups hafa einnig gefið til kynna að heldur væri að draga úr þeirri miklu eftirspurn sem ríkt hefur í hagkerfinu. Þá er gengislækkun krónunnar í marsmánuði  líkleg til að draga úr eftirspurn innflutts neysluvarnings, en nokkrir af undirliðum einkaneyslu sýna umtalsverða fylgni við gengi krónunnar. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar gerðum við ráð fyrir því að einkaneysla myndi dragast saman um 3% á þessu ári, þar sem megnið af samdrættinum kæmi fram á síðari hluta ársins,“ segir í Morgunkorni.