Samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands nam greiðslukortavelta í maí 58.387 milljónum króna og hefur því aukist um 12,6% frá fyrri mánuði að raunvirði, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Aukninguna má að mestu leyti rekja til vaxtar í innlendri veltu. Greiðslukortavelta innanlands í maí nam 53.949 milljónum króna og hefur því aukist um nær 14% frá fyrri mánuði að raunvirði. Hins vegar ef veltan innanlands er borin saman við maí í fyrra hefur hún dregist saman um 0,7%," segir greiningardeildin og bendir á að greiðslukortavelta erlendis hafi dregst saman um nær 0,7% í maí frá fyrri mánuði að raunvirði.

?Aftur á móti mælist 12 mánaða vöxtur greiðslukortaveltu erlendis um 24%. Skýringu má hugsanlega finna í því að greiðslukortavelta er uppgefin í krónum og þegar gengi krónunnar fellur, líkt og hefur verið að gerast undanfarna mánuði, verður veltan meiri í krónum talið," segir greiningardeildin.

Aukning greiðslukortaveltu nam um 0,9% í maí miðað við sama tímabil í fyrra en í apríl síðastliðnum var samdráttur í kortaveltu sem nam 5,7%.

?Þessir síðustu tveir mánuðir gefa vísbendingu um að heldur hafi hægt á vexti einkaneyslu og má búast við að hún gefi enn frekar eftir á næstkomandi mánuðum," segir greiningardeildin,