Greiðslukortavelta í aprílmánuði nam 60,5 milljörðum króna samkvæmt tölum frá Seðlabankanum en Greining Glitnir segir frá þessu í Morgunkorni sínu.

Af því var velta vegna kreditkortanotkunar 27,9 milljarðar króna en velta með debetkort nam 32,6 milljörðum króna í mánuðinum.

Greining Glitnis segir þróun kreditkortanotkunar og notkunar debetkorta í innlendum verslunum, raunvirt með vísitölu neysluverðs og gengisvísitölu, hafa undanfarin ár gefið góða mynd af þróun einkaneyslu.

„Samanborið við seinni hluta síðasta árs hefur orðið allskarpur viðsnúningur í þróun kortaveltu á undanförnum mánuðum. Í apríl reyndist raunvöxtur slíkrar kortanotkunar 2,5% frá sama tíma í fyrra. Á fyrsta fjórðungi ársins var raunvöxtur kortanotkunar, skilgreindur með ofangreindum hætti, 4% að meðaltali,“ segir í Morgunkorni.

Vísbending um minni vöxt einkaneyslu

„Miðað við þessar tölur má ætla að hægt hafi umtalsvert á eftirspurn heimilanna á 1. fjórðungi ársins. Aðrar vísbendingar um einkaneyslu á borð við væntingavísitölu Gallups hafa einnig gefið til kynna að farið væri að draga úr þeirri miklu eftirspurn sem ríkt hefur í hagkerfinu ásamt því að dregið hefur úr aukningu nýskráðra bifreiða. Við reiknum með því að frekar muni hægja á einkaneyslu þegar líður á árið,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni sínu.