Landsbankinn gerir ráð fyrir því að innan tíðar verði greiðslumiðlun bankans óháð Seðlabankanum. Frá því að bankinn var settur á hryðjuverkalista Breta hefur greiðslumiðlun hans í erlendum myntum að mestu farið fram í gegnum Seðlabankann.

Kaupþing og Íslandsbanki hafa á síðustu mánuðum framkvæmt sína greiðslumiðlun án milligöngu Seðlabankans. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hefur bankinn þegar náð samningum um greiðslumiðlun í erlendri mynt við nokkra erlenda banka.

Aðrir samstarfssamningar séu á lokastigi.

„Að öllu jöfnu gengur greiðslumiðlun vel fyrir sig í dag, þó koma fyrir einstaka greiðslur sem einhver vandkvæði eru við. Greiðslumiðlun Landsbankans mætti einhverjum erfiðleikum rétt eftir bankahrunið en þá voru erlendir bankar að setja það fyrir sig að Landsbankinn væri endamóttakandi og töfðu greiðslur,“ segir Tinna J. Molphy, upplýsingafulltrúi NBI, í tölvupósti til Viðskiptablaðsins.