Greiðslur Milestone til Ingunnar Wernersdóttur, systur aðaleigenda félagsins, námu samtals 5,2 milljörðum króna á árunum 2006 og 2007. Greiðslurnar voru inntar af hendi mánaðarlega en ekki hafa fundist fullnægjandi samningar eða skýringar á færslunum. Þetta kemur fram í skýrslu skiptastjóra þrotabús Milestone, Gríms Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, um hag búsins sem kynnt var fyrir kröfuhöfum fyrir viku síðan. Þar segir að því verði að „líta á færslurnar til Ingunnar sem lán“. Áður hafði komið fram að Karl og Steingrímur Wernerssynir hefði greitt Ingunni 2,5 milljarða króna með peningum frá Milestone. Nú er ljóst að sú upphæð er tvöfalt hærri.

Ingunn keypt út með fé frá Milestone

Umræddar færslur voru færðar út af biðreikningum yfir á viðskiptamannareikning Milestone Limited í tveimur færslur í árslok 2006 og 2007, en það félag er í eigu Karls og Steingríms, bræðra Ingunnar. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var um að ræða greiðslur frá bræðrunum til að kaupa systur sína út úr Milestone, þar sem hún hafði verið á meðal stærstu eigenda. Skuld Milestone Limited við Milestone stóð í 6,1 milljarði króna í lok júlí síðastliðins. Í skýrslu skiptastjórans, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, kemur fram að nánast ekkert hafi verið greitt af umræddri skuld. Þar segir orðrétt að „í bókhaldi Milestone ehf. eru hvorki samningar á bakvið greiðslurnar til Ingunnar né samningar um yfirtöku Milestone Limited á yfirtöku skulda Ingunnar“. Þá eru einnig til skoðunar fleiri atriði sem varða rekstur Milestone, til dæmis lán, flugferðir, gjafir til starfsmanna og gjafir/styrkir til utanaðkomandi aðila.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .