„Það er verið að tala um hvort greiðslustöðvun komi til álita og mér skilst að gert sé ráð fyrir að skilanefndirnar verði áfram að störfum,“ segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, í samtali við Viðskiptablaðið. Ákvörðun hefur ekki verið tekin um það hvernig þrotabú bankanna verða rekin nú í framhaldinu en ýmsar vangaveltur eru uppi. Árni segir það fara mjög eftir því hvernig mál þróast hvaða niðurstaða fæst og í því samhengi verði hámörkun á virði eignanna sem skilanefndirnar eru að sýsla með fyrst og fremst höfð að leiðarljósi.

Hámörkun eigna leiðarljósið

„Við erum að vinna í því á fullu að verja eignir og hámarka eignir ásamt því að berja frá okkur lögsóknir,“ segir Árni. Fyrsti formlegi fundur Glitnis með erlendum kröfuhöfum var í gærmorgun og Árni segir hann hafa gengið vel. „Fundurinn var jákvæður og samþykkt var að hittast aftur eftir þrjár vikur. Ég gat ekki betur séð en að kröfuhafar væru ánægðir með að fá upplýsingar og þó að menn geri sér grein fyrir að myndin sé erfið þá voru þeir samt ánægðir með þær upplýsingar og þau skilaboð sem þeir fengu,“ segir hann.

Inntur eftir því hvaða kröfuhafar hafi sótt fundinn segir Árni alla hafa verið bundna trúnaði. Sumir hafi ekki viljað koma en í stað þess hafi kröfuhafar komið saman og sent aðila á fundina fyrir sig til þess að gæta sinna hagsmuna. „Þarna voru fulltrúar fyrir hönd nálægt helmingi kröfuhafa,“ segir Árni.

Erlendir kröfuhafar í óvissu

Viðskiptablaðið kynnti sér þær hugmyndir sem eru uppi um rekstur þrotabúanna. Hugmyndin sem ber hæst nú um stundir virðist vera að setja gömlu bankana í greiðslustöðvun og jafnvel er rætt um að breyta lögunum þannig að hægt verði að fara í tveggja ára greiðslustöðvunarferli. Þá eru hugmyndir uppi um að gömlu bankarnir fái rekstrarleyfi áfram þannig að hægt sé að reka þá til að innheimta kröfur. Allt útlit er fyrir að reynt verði að fara einhverja slíka leið og í framhaldi af því í nauðasamningaferli. Í því ferli er ákveðinn umsjónarmaður og hann er m.a. ábyrgur fyrir því að kröfuhöfum sé ekki mismunað.

Erlendum kröfuhöfum líður núna eins og þeir séu áhrifalausir þannig að líkur eru á að þeir verði sáttir við slíkt fyrirkomulag. Með nauðasamningum eru skilanefndirnar þá komnar í ferli sem erlendir kröfuhafar skilja og geta fótað sig í, en eins og staðan er í dag þá er þrotabú bankanna rekið undir mjög sérstökum kringumstæðum sem þeir átta sig ekki fullkomlega á. Ekki náðist í formenn skilanefnda Landsbankans og Kaupþings við vinnslu þessarar fréttar.