Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs samkvæmt greiðsluuppgjöri fyrir fyrstu ellefu mánuði ársins jókst um 52 milljarða króna, sem er 30,1 milljarða króna hagstæðari útkoma en á sama tíma í fyrra. Tekjur voru 34 milljarða króna. meiri en í fyrra, ef undanskildar eru tekjur vegna sölu Landssímans hf. en gjöld jukust um 5 milljarða króna. Hreinn lánsfjárjöfnuður var jákvæður um tæpa 50 milljarða króna en var jákvæður um rúma 70 milljarða króna á sama tíma í fyrra, segir í vefriti fjármálaráðuneytisins, sem kynnt var í dag.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 339 milljarða króna.  Á sama tíma í fyrra voru þær 361 milljarða króna og þar af voru 57 milljarða króna söluhagnaður af Landssímanum. Skatttekjur og tryggingagjöld jukust um 12,9% að nafnvirði eða 5,9% umfram verðbólgu. Skattar á tekjur og hagnað námu 107 milljarða króna og jukust um 20%. Innheimt tryggingagjöld jukust um 16% milli ára, eða 6% umfram hækkun launavísitölu. Innheimta skatta á vöru og þjónustu nam 160 milljarða króna og jókst um 5,9% að raunvirði. Á árinu hefur hægt á vexti veltuskatta og á síðustu fjórum mánuðum hafa tekjur af veltusköttum í heild dregist saman um 0,8% milli ára að raunvirði.

Greidd gjöld námu 285 milljarða króna og jukust um 5 milljarða króna milli ára. Vaxtagreiðslur lækka um 8,2 milljarða króna, einkum vegna þess að stór flokkur spariskírteina var á innlausn í apríl 2005. Þá lækkar greiddur fjármagnstekjuskattur um 6,1 milljarða króna milli ára vegna sölu hlutabréfa ríkissjóðs í Landssímanum hf. í fyrra. Að vaxtagreiðslum og fjármagnstekjuskatti undanskildum hækka gjöldin um 19,3 milljarða króna eða 7,5%. Mest munar um 5,9 milljarða króna hækkun til heilbrigðismála og 3,3 milljarða króna til menntamála. Þá hækka greiðslur til almannatrygginga- og velferðarmála um 3,1 milljarða króna og almennrar opinberrar þjónustu um 2,5 milljarða króna.
Lántökur ársins nema 21,6 milljörðum króna en afborganir lána 44,6 milljörðum króna. Mismunurinn er fjármagnaður með handbæru fé frá rekstri.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu sem byggðar eru á gögnum um innheimtu virðisaukaskatts var vöruskiptajöfnuður neikvæður um 9 milljarða króna í desember. Flutt var út fyrir um 19 milljarða króna í mánuðinum en innflutningur nam rúmum 28 milljörðum króna.