Þann 13. ágúst síðastliðinn höfðu verið greiddir rúmir 18 milljarðar króna vegna hlutabótaleiðarinnar. Tæplega 4.000 einstaklingar fengu greiddar hlutabætur í júlí en 9.984 í júnímánuði. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins fyrr í dag.

Áætlað er að heildarkostnaður vegna atvinnuleysisbóta og hlutabóta muni nema 78 milljörðum króna á þessu ári. Þar af er áætlað að greiða 22 milljarða vegna hlutabóta en 56 milljarða vegna atvinnuleysisbóta. Nú þegar hefur verið greitt 43,5 milljarða vegna almennra atvinnuleysisbóta.

Atvinnuleysi jókst lítillega milli júní og júlí og hefur aldrei verið meira á þessu ári en 17.104 voru atvinnulausir í lok júlí. Í upphafi árs nam sú tala 7.285 en 14.221 voru atvinnulausir í lok mars. Hins vegar voru 3.811 manns á hlutabótaleiðinni í lok júlí en í apríl, þegar mest á lét, voru það ríflega 32.800 manns.

Mest af ferðagjöfinni farið í gistingu

Þann 10. ágúst höfðu 76 þúsund nýtt ferðagjöfina hjá 759 fyrirtækjum. Að meðaltali hafa um 2.000 ferðagjafir verið nýttar daglega. Að hámarki hafa um 380 milljónir verið nýttar af þeim 1,5 milljörðum króna sem var sett í verkefnið.

Sjá einnig: Ferðagjöfin nýtt í Dominos pítsur

Eins og er hefur 33% af ferðagjöfinni verið notað í gistingu. 31% hefur verið notað í afþreyingu, 25% í veitingar en 11% í samgöngur.