Amazon mun á næstunni hefja tilraunir og þróun á nýrri tækni í Whole Foods verslunum sínum í Seattle. Umrædd tækni mun gera viðskiptavinum verslananna kleift að greiða fyrir vörur með því að skanna lófafar sitt. Reuters greinir frá.

Hefur þessi nýja kerfi verið gefið nafnið Amazon One og felur lausnin það í sér að kreditkort viðskiptavina verður tengt við lófafar þeirra. Amazon segir að umrædd lausn sé snertilaus valkostur sem geti leyst hefðbundnar greiðslur með peningum eða korti af hólmi.

Amazon hefur verið að vinna í að þróa ýmsar tæknilausnir sem ætlaðar eru til að auðvelda viðskiptavinum lífið. Til að mynda hefur fyrirtækið prófað sig áfram með sjálfsafgreiðslulausn sem kemur í stað kassa sem er mannaðir af starfsmanni. Hefur það vakið misjöfn viðbrögð og hafa einhverjir gagnrýnt fyrirtækið fyrir að með þessu sé það að skera niður störf.

Nýja lausnin, Amazon One, krefst þess þó að strikamerki vara séu skönnuð að innkaupum loknum. Þá hefur Whole Foods greint frá því að þessi nýja lausn muni ekki koma til með að hafa þau áhrif að störfum muni fækka.