Kvikmyndaáhugafólk hefur í gegnum árin helst sett traust sitt á Grensásvideó, Aðalvideóleiguna og Laugarásvideó þegar það leitar að sjaldgæfum myndum, eldra efni, sjónvarpsþáttum og myndum utan meginstraumsins frá Hollywood. Í lok febrúar mun Grensásvídeó hins vegar tilheyra fortíðinni. Fjallað er um málið í Fréttatímanum í dag.

Bætist Grensásvídeó því í hóp gamalla vídeóleiga eins og Bónusvídeó og Vídeóhallarinnar sem báðar hafa hætt rekstri.

„Ég hef haft mjög einbeittan vilja til þess að hafa leiguna sér á parti og reynt að gera góða hluti hérna þannig að maður verður svakalega svekktur þegar maður er búinn að eyða miklum fjármunum og tíma í að byggja þetta safn upp. Ég hef í raun verið allt of harður í innkaupum miðað við að ég þarf að loka núna,“ segir Ragnar Snorrason, sem hefur verið með rekstur leigunnar síðastliðinn tíu ár.

Ragnar ætlar að reyna að koma lager Grensásvídeós í verð og á föstudag hefst rýmingarsala og hann vonast til að geta tæmt leiguna fyrir mánaðamót.