Gréta María Grétarsdóttir hefur verið skipuð í stjórn Carbfix, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur. Carbfix er þekkingarfyrirtæki sem veitir ráðgjöf og þjónustu á sviði kolefnisförgunar með það að markmiði að sporna gegn loftslagsvá.

Gréta María var framkvæmdastjóri Krónunnar þar til í vor og áður fjármálastjóri Festi. Gréta hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsar verslunar árið 2019 fyrir áherslu á umhverfis - og lýðheilsumál í störfum sínum hjá Krónunni.

Hún býr einnig að reynslu úr bankakerfinu, þar sem hún starfaði hjá Icebank árin 2007 til 2009, Seðlabankanum 2009 til 2010 og sem forstöðumaður greiningar hjá Arion banka frá 2010 til 2016 sem og í upplýsingatæknigeiranum en hún vann hjá VKS/Kögun sem ráðgjafi árin 2004 til 2007.

Hún hefur jafnframt setið í fjölmörgum stjórnum, til að mynda hjá dótturfélagi Festi, Elko, en einnig hefur hún sinnt kennslu við verkfræðideild Háskóla Íslands og við MPM nám í verkefnastjórn.

Gréta María er í dag formaður stjórnar Matvælasjóðs og situr einnig í stjórn Rauða krossins á Íslandi og Arctic Adventures. Gréta lauk meistaragráðu í verkfræði frá Háskóla Íslands 2008 og BS.c gráðu í verkfræði við sama skóla 2004.