Gréta María Grétarsdóttir hefur óskað eftir að láta af störfum sem framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá útgerðarfélaginu Brimi. Gréta María mun láta af störfum á næstu vikum, samkvæmt tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

„Það er eftirsjá af Grétu Maríu sem hefur reynst félaginu vel og hún hefur komið með margar góðar og ferskar hugmyndir og sýn á okkar rekstur. Við þökkum henni fyrir samstarfið og óskum henni velfarnaðar í spennandi verkefnum framundan,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, í fréttatilkynningu.

Gréta María var ráðinn til Brims í byrjun árs. Hún var áður framkvæmdastjóri Krónunnar á árunum 2018-2020 og hlaut á þeim tíma Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Þar áður var hún fjármálastjóri Festi frá árinu 2018.