Grétar Berndsen og Árni Þór Vigfússon opnuðu fyrr á árinu nýjan skyndibitastað í Stokkhólmi sem hefur fengið góðar móttökur, að því er segir í frétt á mbl.is . Hefur mbl.is það eftir Grétari að fyrst um sinn ætti að slípa staðinn og reksturinn, en fljótlega yrði farið í að opna fleiri staði í Svíþjóð.

Veitingastaðurinn heitir Noodle Mama og er staðsettur í Kungsholmen, ekki langt frá aðalbrautastöðinni í Stokkhólmi og segir Grétar að þeir stóli aðallega inn á hádegisumferðina, en einnig sé staðurinn þannig staðsettur að margir taki með sér mat á leiðinni heim eftir vinnu. Í dag annar staðurinn um 200 viðskiptavinum, en Grétar segir að hugmyndin sé að það muni aukast töluvert á næstunni, en stærð hans er um 65 fermetrar.

Grétar segir við mbl.is að hugmyndin á bak við staðinn hafi fyrst komið frá Árna og konu hans, Mariko Margréti Ragnarsdóttur, sem sé hálf japönsk og það hafi haft töluverð áhrif á uppbyggingu og ásýnd staðarins. „Hugmyndafræðin gengur aðallega út á að gera veitingastað þar sem er mjög hröð og snörp þjónusta, eins og þekkist frá skyndibitastöðum, en að maturinn sé hollur.“