Grétar Þorsteinsson, fráfarandi forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) segir nauðsynlegt fyrir Ísland að óska eftir aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þegar í stað.

Þetta sagði Grétar í ræðu sinni þegar hann setti ársfund ASÍ í morgun.

Hann sagði að aðstoð sjóðsins yrði í formi lánveitingar, en einnig ráðgjafar um það hvernig við komum okkur út úr núverandi ástandi.

„Við þurfum að koma okkur upp trúverðugri áætlun til næstu ára um það hvernig við ætlum að vinna okkur út úr vandanum,“ sagði Grétar.

„Þetta er algjört lykilatriði, samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn skapar skilyrði fyrir því að önnur ríki og Seðlabankar geti komið til aðstoðar. Takist okkur að móta sannfærandi aðgerðaáætlun sem bæði við sjálf og aðrir hafa trú á að gangi, þá opnast leiðir til að byggja upp traustan gjaldeyrisvarasjóð og opna fyrir nauðsynlega lánafyrirgreiðslu erlendis frá.“

Hann sagði þó að vegna þeirra aðstæðna sem nú væru á alþjóðlegum fjármálamörkuðum þyrfti meira til.

„Því tel ég, að til þess að auka trúverðugleika þessara aðgerða, sé eina færa leiðin að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og óska eftir aðildarviðræðum og fá úr því skorið hverra kosta er völ og síðan fari málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Grétar sagði að í beinu framhaldi ætti Ísland að sækja um aðild að evrópska myndsamstarfinu og stefna að því að taka upp evru.

„Með þessu gætum við aukið trúverðugleikann í sambandi við gjaldmiðilinn og skapað okkur forsendur fyrir því að verja fastgengisstefnu á næstu 2-3 árum,“ sagði Grétar.

Grétar sagði að á vettvangi ASÍ hafi verið rætt ítarlega um Evrópusamvinnuna og stöðu launafólks á undanförnum árum.

„Við höfum lýst þeirri skoðun okkar, að þátttakan í þessu samstarfi hafi skilað íslensku launafólki miklu og kostirnir við hana hafi verið margfaldir í samanburði við ókostina,“ sagði Grétar og bætti við að nú værum við einfaldlega stödd á þeim stað að við þyrftum að kveða upp úr um það hvort við sækjum um aðild að Evrópusambandinu eða ekki.

„Ég er þeirrar skoðunar að það gagnist hagsmunum okkar best að stíga skrefið til fulls og að við höfum í raun og veru ekkert val um það.“