Michael Douglas mun á næsta ári snúa aftur í hlutverki bandaríska verðbréfamiðlarans Gordon Gekko en ákveðið hefur verið að framleiða framhald af myndinni Wall Street sem kom út árið 1987 í leikstjórn Olivers Stone.

Talskona 20th Century Fox kvikmyndaversins sagði við fjölmiðla í gær að nú væri full tilefni til að gera framhald af myndinni og fréttir nútímans ættu heldur betur að gefa handritshöfundum nægar hugmyndir.

Michael Douglsa hlaut á sínum tíma Óskarsverðlaun fyrir hlutverk sitt og frasinn „hádegisverður er fyrir aumingja“ (e. lunch is for wimps) varð frægur eftir að myndin kom út, ekki síst á Wall Street.

Eins og eflaust flestir muna fjallaði myndin um Gordon Gekko, harðan verðbréfamiðlara sem að í lok myndarinnar var handtekinn fyrir innherjasvik en hafði þangað til þá notið hins ljúfa lífs í ríkidómi Wall Street miðlara. Framhaldsmyndin á að gerast tveimur áratugum seinna þegar Gekko er laus úr fangelsi og búinn að hefja störf í fjármálakerfinu á ný.

Aðspurður um karakterinn Gekko segir Douglas (sem nú er orðinn 64 ára) að hann sé gamaldags hrappur og siðferði hans sé líklega á svipuðu stigi og áður.

„Ég held hann hafi lítið breyst, hann hefur bara haft nægan tíma til að velta fyrir sér hvað hann getur gert næst,“ segir Douglas sem mun örugglega ekki bregðast aðdáendum sínum í framhaldsmyndinni.

Stanley Weiser, handritshöfundur fyrstu myndarinnar hefur áður lýst yfir áhyggjum sínum af því að nútíma verðbréfamiðlarar á Wall Street líta frekar á Gordon Gekko sem hetju heldur en skúrk. Þá hefur Weiser bætt því við að ef hann hefði tækifæri til hefði hann líklega endurskrifað nokkra af þeim frægu frösum sem einkenndu myndina en einn af frægustu frösunum er án efa „græðgi  er góð“ (e. Greed is good).

„Ef við Oliver Stone ættum 10 cent fyrir hvert skipti sem einhver hefur notað þennan frasa í gríni, bara við okkur, hefðum við getað keypt upp þrotabú Lehman Brothers,“ sagði Weiser í fyrra.

Byrjað verður á framleiðslu Wall Street 2 í sumar.