Norðurál auglýsti nýlega eftir starfsfólki í sumarafleysingar í álverinu á Grundartanga.  Viðbrögð við auglýsingunni voru afar jákvæð og bárust ríflega 500 umsóknir, víðs vegar af landinu, flestar frá suðvesturhorninu.

Norðurál reiknar með að ráða um 130 manns í  afleysingar á Grundartanga í sumar.  Áskilið var að umsækjendur væru eldri en 18 ára og gætu unnið í a.m.k. tvo og hálfan mánuð samfellt.

„Við áttum von á góðum undirtektum en óneitanlega hefur þessi mikli áhugi farið fram úr öllum væntingum,” segir Rakel Heiðmarsdóttir, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Norðuráls á Grundartanga í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Við höfum vart haft undan við að svara fyrirspurnum og taka á móti umsóknum síðustu vikur. Í þessari viku erum við að taka fjölda viðtala á dag því nú eru flestir umsækjendur í páskafríi. Það er gaman að sjá hve ungt fólk hefur mikinn áhuga á störfum í álverinu okkar og við hlökkum til að fá hressan og öflugan hóp til liðs við okkur í sumar.“